Útsölulok Þrír ungir menn, rammvilltir í gráum hversdagsleikanum birta hér smásögur, ljóð og prósa, öðrum en þó helst sjálfum sér til skemmtunar.



mánudagur, mars 29, 2004 :::
 
Það er hálfgert haust, muldraði hann mæðulega þegar hann gekk inn.
Ég vissi ekki hvort hann væri að tala við mig eða bara engan.
Sumarið hafði verið ofurhlýtt og minning um vind einungis verið það, minning.
En í dag rigndi, og vindurinn hafði flogið norður með september.

::: posted by grunar at 12:13 f.h.



sunnudagur, janúar 25, 2004 :::
 
Til verndar frelsinu
uppúr sjónum leka á yfirborðið rauðir flekkir andskotans
í fjöruborðinu standa þúsund nakin börn
sveipuð loforðum morgundagsins

í plexíglerhöllinni situr markaðsfræðingur
í forundran starir á konu í pastelgrænu pilsi
það er löngu dottið úr tísku, hugsar hann

tuttugusta og fyrsta, öld skyndiþarfamannsins
,,ég á keyri á monsterjeppanum mínum upp að dyrum World Class
því ég nenni ekki að labba of langt að hlaupabrettinu mínu”

til verndar frelsinu
,,mesta ógn nútímans eru hryðjuverk”
segir vopnaframleiðandinn í Washington

á sjónvarpsskjánum sjást þúsund nakinn börn
er dóu úr hungri í fjöruborðinu
til verndar frelsis offitusjúklinga í USA


::: posted by sigurgeir at 8:10 e.h.



laugardagur, janúar 10, 2004 :::
 
Yfir holt og himnasængur
hef ég reikað daga og nætur
ég er stór á rauðum hesti
ég er stríðsmaðurinn besti

::: posted by sigurgeir at 10:24 e.h.



fimmtudagur, júlí 10, 2003 :::
 
Allar persónur lifa í einu tilteknu augnabliki. Augnabliki sem það skilgreinir alla sína tilveru útfrá. Hugsanlega þó þegar áhrif augnabliksins fara að fjara út leitar persónan eftir nýju momenti til að skilgreina sig útfrá, og það lætur ekki standa á sér því allir fá alltaf allt sem þeir vilja. Sumir eru þó alltaf fastir í sama augnablikinu. T. a. m. Keith Richards sem er alltaf hassreyktur 22 unglingur, nýbúinn að uppgötva að hann er súperrokkstjarna sem getur fengið sér að ríða með hverjum sem er. Eða Pamela Anderson sem er sílikonbrjóst, hlaupandi um ströndina í rauðum sundbol í sífellu að leita að hinni fullkomnu fegurð. Ef helvíti er til er það einmitt þetta, að vera fastur til eilífðar í einu tilteknu augnabliki lífs þíns.

::: posted by sigurgeir at 3:05 e.h.



miðvikudagur, apríl 23, 2003 :::
 
ég man þergar að þú varst gömul,
og við vorum búin að vera hjón
í fimmtíu ár

þú klipptir á mér táneglurnar,
því ég gat ekki lengur
beygt mig að þeim

og við lögðum okkur,
í útvarpsherberginu,
eftir kaffitímann

en núna,
þegar við erum orðin ung,
gengur allt svo hratt fyrir sig



::: posted by grunar at 2:02 f.h.



laugardagur, apríl 19, 2003 :::
 
atómljóð no. 7 (auga fyrir auga, tönn fyrir tönn)
á fjalli einu í suðurhöfum hitti Móses Guð á barnum á toppi fjallsins
,,má ekki bjóða þér rússneskt kókaín” spurði Morgunstjarnan sem einnig var stödd þarna
lítil hrokkinhærð stelpa með ljósa lokka
,,nei nei, bara kaffi fyrir mig takk” sagði Móse
,,hvað þú neitar, viltu finna fyrir ógnarkraafti mínum og reiði, ég þyrmdi þér og þjóð þinni í eyðimörkinni, það skal ekki gerast aftur"
,,svona svona gamli", sagi þá Lúsifer ,,hann vill greinilega ekki drekka með okkur, hann um það,
en það munu verða fleiri"


::: posted by sigurgeir at 8:54 e.h.



fimmtudagur, apríl 17, 2003 :::
 
atómljóð no. 6 (egó)
Sjálfmenntaður
-meðvitaður
asni
starir á mágkonu sína
og segir:
ég var einu sinni kosinn ræðukóngur í skóla...
já þegar ég var 12 ára

::: posted by sigurgeir at 9:33 e.h.



mánudagur, apríl 14, 2003 :::
 
atómljóð no. 5 (Afarkaría)
Í gærkvöldi lenti á Austurvelli geimskip með sendiboða frá fjarlægri plánetu.
Kallast hún Afarkaría og er miðpunktur í risastóru alheimsskipulagi sem Jörð vor er víst partur af, afarkaríska Heimsveldið. Þeir báru tíðindi frá Afarkaríu 1 þess efnis að ef ríkisstjórn Íslands myndi ekki hætta þessum sífelldu afarkarískubrotum á þjóð sinni undir eins, myndi þeim verða nauðugur kostur einn að gera upptækt allt grænmeti í landinu. Frosætirsráðherra lýsti yfir undran sinni á þessu og skildi hvorki upp né niður í þessum skilaboðum. Ekki er enn á hreinu hvað ríkisstjórnin ætlar að aðhafast, enda hefur hún aldrei nokkurn tíman heyrt minnst á Afarkaríu áður né á undarlegar reglur þeirra.


::: posted by sigurgeir at 10:35 e.h.



sunnudagur, apríl 13, 2003 :::
 
atómljóð no. 4 (sólskin)
förum úr
og göngum á grasinu
veltumst um í vatninu
felum okkur á fjallinu
bara við tvö
ein
langt langt í burtu
fjarri öllu frelsistali heimskingja


::: posted by sigurgeir at 5:54 e.h.



laugardagur, apríl 12, 2003 :::
 
atómljóð no. 3 (veröld Hannesar)
stúlkan sat á tröppunum og starði uppí loftið
skýinn voru hvít í austri og svört í vestri
það var að koma rigning
súr rigning
,,hvað er orðið um sólina
sem endrum og eins sendi rauða geisla sína
gegnum þungan norðanhimininn”
spurði barnið vitringinn
,,hún er horfinn í peningahaf naumhyggjunnar”
dæsti vitringurinn


::: posted by sigurgeir at 6:27 e.h.



föstudagur, apríl 11, 2003 :::
 
atómljóð no. 2 (...en í draumum mínum)
sófinn var rauður
konan klæddi sig úr fötunum og lagðist á hann
hana dreymdi um allt það sem var rautt
ekki grátt eins og dragtin hennar
ekki grátt eins og vinnan hennar
ekki grátt eins og hversdagsleikin
hún svaf værum svefni
og þegar hún vaknaði var allt jafn grátt og áður
nema sófinn
hann var rauðari sem aldrei fyrr


::: posted by sigurgeir at 4:57 e.h.



fimmtudagur, apríl 10, 2003 :::
 
atómljóð no. 1 (hreinskilna stúlkan)
,,skórnir eru alltof litlir”
sagði stúlkan við afgreiðslumannin
og hann rétti henni hattinn sinn og mælti:
,,taktu hár úr hatti mínum og leggðu það á jörðina
og upp munu rísa skógar alsgnætta
rennandi gullár
stöðuvötn af gosdrykkjum
og bleik ský munu þekja himininn”
stúlkan starði á manninn með litlu fallegu bláu augunum sínum og sagði:
,,en mér vantar bara skó svo ég fái ekki blöðrur á fæturna”


::: posted by sigurgeir at 9:33 e.h.


 
Það dó einhver í húsinu á móti í dag. Ég sá þegar sjúkrabíll kom að, og inn í húsið hlupu fjórir sjúkraliðar. Það voru fleiri í gluggunum en bara ég. Sumir virtust jafnvel hafa vaktaskipti á því að horfa. Ég sat og fylgdist með þessu öllu frá eldhúsborðinu. Eftir um smástund kom að annar sjúkrabíll, en þessi var sérstaklega merktur Rauða-krossinum sem og sjúkraliðarnir tveir. Þeir gengu hægt inn í húsið. Rétt á eftir þeim komu tveir fullorðnir lögreglumenn. Sjúkraliðarnir fjórir, sem fyrstir komu, keyrðu lítilsmegnugir burt. Þá fóru ættingjar að streyma að. Þeir sem elstir voru hlupu inn í húsið, sem þeir greinilega þekktu mjög vel. Aðrir, aðeins yngri, gengu rólega, og að því er virtist - nokkuð óttaslegnir. Þeir yngstu komu leitandi að rétta húsnúmerinu. Því betur sem ég áttaði mig á því að hér hafði einhver verið að deyja, því meir var ég farinn að fela mig á bak við gluggatjöldin. Vaktmennirnir úr hinum gluggunum voru einnig orðnir ósýnilegir. Það virtist vera öllum svo eðlislægt að fela sig fyrir dauðanum.

::: posted by grunar at 12:51 f.h.



föstudagur, apríl 04, 2003 :::
 
Smár

Á leikskóla á Vestur-Stjórnleysislöndum
bjargaði fimmáragamall strákur lífi skólasystur sinnar,
þegar hann barði hana í bakið með skóflu,
eftir að hafa neytt hana til að gleypa stein
sem svo stóð í henni.
Margur er knár þótt hann sé.


::: posted by grunar at 1:12 f.h.



miðvikudagur, apríl 02, 2003 :::
 
Viðrar vel til loftárása

Ég opnaði dyrnar að því sem eitt sinn hafði verið stofan í þessu gamla húsi. En við mér blasti ekki gamla sófasettið sem afi og amma höfðu keypt í árdaga, ekki skrautlega ljóskrónan sem hangið hafði í loftinu né málverkið á veggnum sem sýndi stóran vita á jaðri bjargs eins mikils við strendur á fjarlægu landi. Við mér blasti nú aðeins eyðilegging og dauði. Stofan var farinn, horfinn út í buskann. Þar sem húsið stóð á hæð sást vel yfir borgina, sem nú var öll einar brunarústir. Þar sem áður höfðu verið tígurlegar byggingar, forn hof, skólar og reisluleg íbúðarhús, var nú blóðrauður reykur tortímingar. Í miðju hrúgaldinu eygði ég hreyfingu og einhver stundi sáran. Þetta voru síðustu dauðateygjur barnshafandi konu minnar. Ég reyndi að færa til rústirnar og draslið sem lá ofan á henni en það var um seinan. Þær voru báðar dánar, hrifsaðar burt án nokkurar ástæðu. Á einu augabragði breyttist líf mitt. Öll mín trú, öll mín ástríða, allar mínar husjónir voru ekki lengur til, nú var ekkert nema ólgandi hatrið eftir.


::: posted by sigurgeir at 8:32 e.h.



þriðjudagur, apríl 01, 2003 :::
 
,,Ég er níu"
- sagði klukkan
,,Þú átt eftir að lesa mig alla"
- æpti þá kennslubókin
,,Komdu að kela"
- hvíslaði koddinn minn

Þá malaði ég mér dansandi
kólumbískar örkubaunir,
og fór að lesa bókina
svo að ég fengi svefnfrið
fyrir öskrunum í henni.




::: posted by grunar at 1:08 f.h.



föstudagur, mars 28, 2003 :::
 
"Verði ljós!", æpti hann, en það varð ekkert ljós.Og þar sem ekkert gerðist fannst honum hann vera hálf kjánalegur, standandi þarna einn og æpandi út í nóttina. Fólk gæti haldið að hann væri geðveikur. En þar með var þessi tilgáta sannreynd, og tímabært orðið að snú sér að öðrum tilraunum. Hann var allavega ekki guð.
Nú var bara að læðast óséður aftur heim, á náttfötunum.


::: posted by grunar at 9:30 e.h.



þriðjudagur, febrúar 11, 2003 :::
 
STUNDARGAMAN

er þú hélst mér í fangi þínu
fannst mér í fáránleika hugans
allir heimsins vegir
alltaf hafa legið til þín

en ég átti eftir að uppgötva að
örlögin stíga ekki dans
í takt við lífsins dans,
og um skeið flæktist ég
um í rósarþyrnum
þessa eina kvölds okkar

þögn þín var óbærileg
þangað til ég skyndilega sá
að þú varst bara
klofvega öngstræti sem ég
villtist um í stutta stund

takk samt fyrir þægilegheitin


::: posted by sigurgeir at 8:16 e.h.






_______________
_______________

Þrír ungir menn, rammvilltir í gráum hversdagsleikanum birta hér smásögur, ljóð og prósa, öðrum en þó helst sjálfum sér til skemmtunar.



Powered by Blogger